Fyrirlestrar, fræðsla og námskeið
Við bjóðum vinnustöðum, foreldrahópum, skólum, pörum og hópum upp á fyrirlestra, námskeið og fræðsluerindi. Undanfarin ár höfum við heimsótt fjölda vinnustaða og skóla ýmist saman eða í sitt hvoru lagi. Við bjóðum upp á nokkur ólík erindi og námskeið og getum einnig sér sniðið að þörfum hópa.
Á meðal þeirra sem við höfum fengið að heimsækja og fræða eru RÚV, Arion banki, Origo, Marel, Kolibri, KPMG, Mannvit, Coca Cola, Valitor, Seðlabankinn, VÍS, Embætti ríkislögreglustjóra, Alcoa, Landsbankinn, Landspítalinn, Orkuveita Reykjavíkur, Norðurál, Ölgerðin, Landsnet, sveitastjórnar- og utanríkisráðuneytin, stjórnsýsla Kópavogsbæjar, jafnréttisnefnd BSRB, trúnaðarráð Sameykis, BHM, VR og all margir grunn- og framhaldsskólar og félagsmiðstöðvar um allt land.
Fyrirlestrar 2025
Þriðja og önnur vaktin á vinnu-stöðum
Erindið fjallar um hugrænu byrðina sem fylgir hinni ólaunuðu ábyrgð, yfirumsjón og verkstýringu á heimilis- og fjölskylduhaldi. Ábyrgð sem kölluð er þriðja vaktin. Leitast verður við að skýra þriðju vaktina og varpa ljósi á áhrif ójafnrar ábyrgðar á þessum ólaunuðu störfum. Erindið byggir á fræðilegri og persónulegri reynslu fyrirlesara, þar sem þau flétta saman sálfræðilegu- og kynjafræðilegu sjónarmiði saman við persónulega glímu sína við þriðju vaktina á eigin heimili. Hulda og Þorsteinn sáu um heimilda- og textavinnu fyrir átak VR um þriðju vaktina og eru höfundar bókarinnar Þriðja vaktin – Jafnréttishandbók heimilisins.
Fyrirlesarar: Hulda Tölgyes og Þorsteinn V.
Hentar: Vinnustöðum og öllu fullorðnu fólki.
Tími: 50 mínútur og umræður.
Available in english
Afturábak eða áfram?
Fræðsla er ein forsenda jafnréttis og inngildingar á vinnustöðum og í samfélaginu öllu. Eftirsóknarverðir vinnustaðir skapa öruggt umhverfi með inngildingu að leiðarljósi. Fyrirstaðan er oft kynbundin, blundar í óskráðum reglum, hefðum og venjum og þeirri ímynd að jafnrétti hafi verið náð.
Markmið erindisins er að varpa ljósi á dæmigerða reynslu kvenna og kvára af vinnustöðum og draga fram dæmi um „ósýnilegar“ en áþreifanlegar hindranir jafnréttis. Erindið veitir starfsfólki og stjórnendum innsýn svo þau geti rutt úr vegi dulinni fyrirstöðu jafnréttis og inngildingar.
Fyrirlesarar: Hulda Tölgyes sálfræðingur og Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur.
Hentar: Vinnustöðum sem leggja áherslu á jafnrétti og inngildingu.
Tími: 45 mín og umræður.
Sjö leiðir að inngildandi karlmennsku
Karlmennska hefur áhrif á samskipti, vinnustaðamenningu og sjálfsmynd karla. Sumar karlmennskur hafa neikvæð og skaðleg áhrif á meðan aðrar geta veitt körlum haldreipi og stutt við inngildandi menningu. Jákvæð eða heilbrigð karlmennska sem er styðjandi við fjölbreytileikann eykur lífsgæði karla, kvenna og kvára og er styður við jafnrétti.
Fyrirlesari: Þorsteinn V. kynjafræðingur
Tími: 45 mín auk umræðna
Hentar: Vinnustöðum, skólahópum og öllum kynjum.
Mörgum finnst erfitt að segja nei, setja mörk og standa með sjálfu sér. Þau eru hrædd um að vera leiðinleg, valda vonbrigðum og óttast möguleg viðbrögð fólks. Þetta á sérstaklega við um konur og kvár sem hafa verið krafin um að þóknast, láta lítið fyrir sér fara og vera næs. Í erindinu er farið yfir mögulegar afleiðingar af því að setja öðrum ekki mörk, hvers vegna það getur verið erfitt og hagnýtar aðferðir kynntar til að standa með sjálfu sér og setja heilbrigð mörk í vinnu og einkalífi.
Fyrirlesari: Hulda Tölgyes sálfræðingur.
Hentar: Vinnustöðum, foreldrahópum og framhaldsskólanemum.
Tími: 45 mín og umræður.
Available in english.
Virðingarík samskipti
Tökum í alvöru umræðuna um trans, kynfæri, litninga, karlmennsku og kvenréttindi. Undanfarin ár hefur umræðan oftar verið tekin á forsendum staðalmynda og ranghugmynda sem standast ekki skoðun né gagnrýni. Umræðan snýst því oft meira um fordóma einstaklinga og þörf fyrir að halda í þrúgandi kynjareglur, frekar en raunverulegar og málefnalegar umræður.
Í erindinu förum við yfir flækjur og mótsagnir kynjaumræðunnar og tungumálsins og ranghugmyndir fólks um kvenleika og karlmennsku og kraft kynfæra og kynlitninga – hvernig það hefur áhrif á líf okkar allra og hvernig við sjáum og komum fram við annað fólk.
Erindið er byggt á fræðilegri þekkingu og áratuga reynslu Uglu Stefaníu og Þorsteins V. af jafnréttismálum, aktívisma og fræðslu.
Ugla Stefanía er með meistaragráðu í kynjafræði og er sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks. Hún hefur starfað með öllum helstu hinsegin félögum landsins í meira en áratug og sat í frumvarpshóp laga um kynrænt sjálfræði. Þorsteinn er með meistaragráðu í kynjafræði, stofnandi samfélagsmiðilsins Karlmennskan og hefur starfað við fyrirlestra og ráðgjöf í jafnréttismálum undanfarin ár.
Hentar: Öllum vinnustöðum sem taka jafnrétti alvarlega.
Tími: 45 mínútur og umræður
Fyrirlesarar: Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson
Einnig hægt að bóka sem námskeið
Ertu með typpi eða píku?
Námskeið
Karlmennskuskólinn
Karlar eru í lykilstöðu til að brjóta niður feðraveldið og stuðla að jafnrétti. Þeir geta beitt forréttindum sínum heima, í vinnunni, skólanum og vinahópum. Forsenda þess felst í að ígrunda eigin karlmennsku, skilja forréttindi og valdatengsl.
Markmið Grunns 01 er að karlar öðlist
grunnskilning á karlmennskukenningum
færni í að rýna í eigin forréttindi
hugrekki til að beita sér fyrir jafnrétti.
Hentar körlum sem hafa áhuga á jafnrétti, getu til sjálfsgagnrýni og vilja beita sér á vinnustaðnum, störfum sínum, heima við og persónulega.
Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur, kennari og umsjónarmaður samfélagsmiðilsins og hlaðvarpsins Karlmennskan.
Verð: 29.500 kr.
Vinnustaðir eru hvattir til að borga fyrir sitt starfsfólk. Annars ættu stéttarfélög að greiða niður námskeiðsgjaldið.
ATH. Námskeiðinu er skipt niður á tvo daga.
Grunnur 01
Þriðja vaktin
fyrir pör og sambúðarfólk
Nánar auglýst síðar.
Keðjubrjótar
örnámskeið með Huldu Tölgyes sálfræðingi
Örnámskeið með Huldu Tölgyes sálfræðingi þar sem farið verður yfir það hvað áföll eru, einkenni áfallastreitu, hvað gerist innra með fólki þegar það verður fyrir áfalli, hinar ýmsu birtingarmyndir afleiðinga áfalla og við hverju má búast þegar fólk vinnur með áföll í átt að bata og öryggi í eigin skinni. Þá verður einnig farið yfir það hvernig áföll ferðast niður kynslóðir og hvað þarf að takast á við til að brjóta þá keðju fyrir okkur sjálf, börnin okkar og önnur mikilvæg tengsl.
Fyllsta trúnaðar er heitið á námskeiðinu.
Dagsetning óákveðin.
Hulda er sjálfstætt starfandi sálfræðingur sem hefur einbeitt sér að málefnum jafnréttis undanfarin ár auk þess að nota EMDR í einstaklingsmeðferð við einkennum áfalla, áfallastreituröskun og flókinni áfallastreituröskun. Auk þess hefur hún haldið hin ýmsu námskeið tengd líðan, meðgöngu, foreldrahlutverkinu, sjálfsmildi, þriðju vaktinni, því að setja mörk ofl. síðastliðin ár og heimsótt bæði fyrirtæki og stofnanir.
Athugið að þetta er fræðsla en ekki klínísk meðferð en sálfræðingur getur vísað þeim sem þess óska í viðeigandi farveg.